Lagnafóðrun

Fóðrun gamalla frárennslislagna

Verkval ehf getur nú í samstarfi við Lagnaviðgerðir ehf boðið húseigendum upp á fóðrun frárennslislagna innan húss sem utan. Lagnafóðrun er hagkvæm lausn þar eð ekki þarf að brjóta gólf eða grafa upp lóðir. Algengur verktími fyrir einbýlishús er tveir dagar og þann tíma má ekki renna vatn um lagnirnar. Frárennslið er fyrst þrifið með vatni undir háum þrýstingi og síðan ástandsskoðað með myndavélum. Lögnin er því næst fóðruð með grimmsterkum epoxy sokk sem myndar slétta áferð innan í rörinu og er talinn hafa endingartíma á við PVC rör.

Gamlar skólplagnir

Nú er svo komið að fjöldi húsa eru orðin eldri en 50 ára og ástand skólplagna er orðið slæmt. Algengt var að notuð væru steinrör á þessum tíma, en oft voru þó lögð járnrör, svokölluð pottrör undir gólfplötu. Potturinn stendur sig oft betur en steinninn, en þarf sitt viðhald. Steinrörin undir húsinu slitna og afrennsli hitaveitu hefur skaðað þau með sínu sífelda álagi og volgu rennsli. Rörin verða hrjúf og sækja í að stíflast eftir því sem tíminn líður. Steinrör fara iðulega að leka á samskeytum sem getur valdið skólpleka undir gólfi húss og boðið heim rottum, skólpmaur og fleiri lífverum sem við viljum ekki á heimilum. Lagnafóðrun leysir þessi vandamál, því að hvorki rottur, maurar né önnur dýr kæra sig um epoxy plastefnið sem notað er.

Rótavandamál

Trjárætur eru oft stórt vandamál á lóðum húsa. Utanhúslagnir sem eru eldri en 40 ára eru oftast steinlagnir og þær eru ekki þéttar á samskeytum. Rætur trjáa og runna leita inn í lagnirnar og stífla þær að lokum. Við þetta gliðna oft samskeyti röranna og vandamálið verður viðurloðandi. Ef ekki er brunnur á lóðinni þarf oftast að grafa og setja brunn við útrennsli hússins. Eftir að slíkt er gert er svo hægt að skera eða fjarlægja rætur úr lögninni út í götu og þá er ráðlegt að fóðra hana til að fyrirbyggja frekara tjón.